Viðskiptavinir 

Helstu viðskiptavinir okkar eru raforkuframleiðendur, dreifingaraðilar raforku, stórnotendur og sölufyrirtæki og skiptust þeir þannig í árslok:

Dreifiveitur

RARIK
HS Veitur
Norðurorka
Veitur
Orkubú Vestfjarða
Rafveita Reyðarfjarðar

Framleiðendur

Landsvirkjun
ON
HS Orka
Orkusalan
Fallorka

Stórnotendur

ADC
Verne Holding
United Silicon
Becromal
ISAL
Alcoa
Elkem
Norðurál

Á árinu hófust orkuflutningar til tveggja nýrra viðskiptavina okkar sem báðir eru skilgreindir stórnotendur.  Jafnframt var unnið að úrbótum til að auka þjónustu við viðskiptavini með nýjum og bættum þjónustuferlum og nýrri nálgun á aðgengi upplýsinga á vefnum okkar. Markmiðið er að þjónustuferlið taki heildstætt á þeim erindum sem koma frá viðskiptavinum okkar og tryggi þeim réttan farveg og úrvinnslu.

Netmálar

Unnið var að breytingum á skilmálum um tæknilegar kröfur til vinnslueininga (D1) á árinu, ásamt frumgerð að netmála um kerfisframlag (D3). Þeir voru kynntir fulltrúum í viðskiptamannaráði Landsnets í október 2016 og sendir í umsagnarferli í framhaldinu. Báðir netmálarnir munu taka gildi á árinu 2017.

Breytingar á netmála D1 fela í sér mikilvæga aðlögun að fjölbreyttari tegundum vinnslueininga, s.s. vindmyllum. Einnig var horft til tæknilegra krafna og vinnslueininga sem eru undir 10 MW og hafa val um að tengjast flutningsnetinu okkar beint.

Skilmáli okkar um kerfisframlag er nýr og til kominn að kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um gagnsæi í kostnaðarákvörðunum vegna tenginga nýrra virkjana eða notenda við flutningskerfið. 

 

 


Upprunaábyrgðir raforku

Útgáfa upprunaábyrgða, eða svokallaðra grænna skírteina sem staðfesta að tiltekið magn raforku hafi verið framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, jókst um þriðjung milli áranna 2015 og 2016 og var alls um níu milljón skírteini, sem er svipað magn og gefið var út árið 2014.

Á árinu voru teknar til endurvottunar þær framleiðslustöðvar sem fengu fyrst vottun árið 2011 og var ákveðið að endurvottunin væri endurgjaldslaus, ef engar breytingar hefðu orðið á búnaði eða rekstri stöðvanna. Jafnframt var ákveðið að hækka verðskrá Landsnets vegna umsýslu með skírteinin um 4%. Hún tekur gildi frá ársbyrjun 2017 en breytingar voru síðast gerðar á verðskránni í maí 2014.

Á meðfylgjandi mynd má sjá þróunina í útgáfu upprunaskírteina í MWst, fjölda afskráðra skírteina í MWst og verðlagsþróun þeirra.