Þróun flutningskerfisins

Vinna við kerfisáætlun var fyrirferðarmikil í starfsemi okkar árið 2016 og var ráðist í umfangsmikla þarfagreiningu og stóraukið samráð við hagsmunaðila til að ná fram skýrari mynd af þeim kröfum sem gera þarf til flutningskerfisins. Sem fyrr skipuðu kerfisrannsóknir mikilvægan sess og var unnið að mörgum og fjölbreyttum undirbúnings- og fjárfestingaverkefnum á árinu.

Kerfisáætlun með breyttu sniði

Kerfisáætlun 2015-2024 er sú fyrsta sem unnin var eftir breyttum lagaramma sem felur m.a. í sér árlega uppfærslu áætlunarinnar og afgreiðslu Orkustofnunar. Hún hlaut samþykki í apríllok 2016. Þá þegar var vinna við endurskoðun áætlunarinnar hafin og var tillaga að kerfisáætlun 2016-2025 - Innviðirnir okkar - lögð fram til kynningar í nóvember. 

Margvíslegar endurbætur voru gerðar á áætluninni frá síðustu útgáfu. Má þar helst nefna forsenduhlutann en kynntar voru til sögunnar nýjar sviðsmyndir um þróun raforkumarkaðar á Íslandi. Var m.a. ráðist í umfangsmikla þarfagreiningu þar sem reynt var að kortleggja betur mögulega framtíðarþróun raforkumarkaðar á Íslandi og ná þannig fram skýrari mynd af þeim þörfum sem framtíðarflutningskerfi raforku þarf að fullnægja. Spanna sviðsmyndirnar allt frá orkuþörfinni, sem lýst er í raforkuspá, til mögulegra orkuskipta í samgöngum og iðnaði. Lögð var aukin áhersla á umfjöllun um jarðstrengi og reifaðar mögulegar hámarkslengdir á jarðstrengslögnum í 220 kV kerfi. Einnig var umfjöllun um hagrænt mat uppbyggingar á flutningskerfinu aukin til muna og var niðurstaða hennar að allir valkostir uppbyggingar væru þjóðhagslega hagkvæmir, óháð því til hvaða sviðsmynda væri litið við matið. Helsta breytingin á þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunarinnar er að Hólasandslína 3, milli Akureyrar og Hólasands, var tekin fram fyrir Blöndulínu 3 sem lendir utan við framkvæmdaáætlun að sinni.

Við vinnslu kerfisáætlunarinnar var lögð enn frekari áhersla á samráð en verið hefur. Við þróun sviðsmyndanna var t.d. haft samráð við framleiðendur og söluaðila raforku þar sem þeirra sýn á framtíðina var kortlögð og felld inn í eina af skilgreindu sviðsmyndunum. Drög að kerfisáætlun 2016-2025 og umhverfisskýrslu voru kynnt á vel sóttum fundi í lok nóvember á Hótel Nordica, sem sjónvarpað var frá á netinu. Í kjölfar kynningarfundarins voru haldnir fundir með hagsmunaaðilum, framleiðendum og dreifingaraðilum raforku, stórnotendum og hagsmunasamtökum notenda, ásamt fulltrúum samtaka sveitarfélaga og náttúruverndarsamtaka. Alls urðu fundirnir 17 talsins. Skoðanaskipti voru góð og gagnleg og margar ábendingar komu fram sem munu nýtast við vinnslu næstu kerfisáætlunar og umhverfisskýrslu.

Umfangsmiklar kerfisrannsóknir

Mikil vinna var lögð á árinu í greiningar á hámarkslengdum jarðstrengja í nýju 220 kV flutningskerfi raforku, bæði raftæknilegum og kerfislegum þáttum sem takmarka mögulegar strenglengdir í einstökum línum, jafnframt því sem skoðuð voru innbyrðis áhrif strenglagna í mismunandi línum á mögulegar jarðstrengjalengdir. 
Unnið var að svæðisbundnum kerfisgreiningum, m.a. á Suðurnesjum og Vestfjörðum, ásamt því að halda áfram að meta flutningsgetu lína í rekstri og möguleika á því að auka hana. Þá fór talsverð vinna í gerð staðlaðra hönnunarforsendna jarðstrengslagna og stutt var við rannsóknarvinnu atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis um lagningu sæstrengs á milli Íslands og Bretlands.

Þá var haldið áfram að þróa aðferðir til að meta umfang áflugs fugla á loftlínur, gögnum safnað úr ísingarmælum og fylgst með hitamyndun og varmaviðnámi í jarðvegi umhverfis valda jarðstrengi, svo nokkur dæmi séu nefnd um verkefni liðins árs á sviði umhverfisrannsókna.

Kerfisgreining og hönnun

Unnið var að mörgum og fjölbreyttum fjárfestingaverkefnum á árinu en undirbúningur þeirra skiptist m.a. í frumgreiningu kosta, skipulagsmál, mat á umhverfisáhrifum og verkhönnun. Undirbúningstími er mismunandi eftir verkefnum og getur staðið allt frá nokkrum mánuðum upp í allmörg ár.

Tæplega 30 undirbúningsverkefni voru í vinnslu á árinu og lauk vinnu við 16 þeirra. Þar má nefna línur og tengivirki frá Kröflu að Bakka við Húsavík, nýjan jarðstreng milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur, nýtt tengivirki við Ólafsvík, nýtt tengivirki á Hvolsvelli, nýja tengingu við stækkaða Búrfellsvirkjun, breytingar á tengivirki við Mjólkárvirkjun o.fl. 

 

Nýframkvæmdir og viðhaldsverkefni

Fjárfestingar í nýframkvæmdum í flutningskerfinu námu um 5,5 milljörðum króna á árinu og var það um 50% hærri fjárfestingarkostnaður en árið 2015. Umfangsmestu framkvæmdirnar voru á Norðausturlandi og nam kostnaður vegna þeirra rúmum helmingi alls fjárfestingakostnaðar ársins. Viðhaldsverkefni tóku einnig drjúgan tíma og viðamiklar nýframkvæmdir voru enn fremur í undirbúningi á árinu.

 

Krafla, Þeistareykir og Bakki

Á árinu hófust framkvæmdir á Norðausturlandi vegna tengingar Þeistareykjavirkjunar við iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavík og tengingar virkjunarinnar við flutningskerfið. Um er að ræða tvær 220 kV raflínur, Kröflulínu 4, um 33 km loftlínu frá Kröflu að Þeistareykjum og Þeistareykjalínu 1, um 29 km loftlínu frá Þeistareykjum að Bakka, ásamt þrem nýjum 220 kV tengivikjum á Þeistareykjum, Bakka og í Kröflu.

Framkvæmdir hófust í júní en nokkrar tafir urðu á verkinu vegna leyfis- og kærumála. Vinna við byggingu tengivirkjanna þriggja hófst um sumarið og gengu þær vel, enda einmunatíð og vinna við reisingu mastra hófst um haustið.

 

Suðurnesjalína 2

Framkvæmdir hófust árið 2016 við byggingu Suðurnesjalínu 2, 32 km 220 kV raflínu sem liggja á frá Hafnarfirði út á Reykjanes og mun auka afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum. 

Suðurnesjalína 2 hafði verið í undirbúningi hjá Landsneti um árabil og lágu öll tilskilin leyfi fyrir en á vormánuðum felldi Hæstiréttur úr gildi heimild til eignarnáms og voru framkvæmdir þá stöðvaðar.

Niðurstaða meirihluta Hæstaréttar var að Landsnet hefði átt að gera nánari grein fyrir þeim kostum sem voru til umræðu meðal landeigenda. Í kjölfarið var unnin valkostaskýrsla sem  bar saman loftlína-  og jarðstrengjakosti á svæðinu. Um er að ræða tvo jarðstrengjavalkosti, samsíða núverandi loftlínu eða í veghelgunarsvæði Reykjanesbrautar og einn loftlínukost samsíða núverandi loftlínu en ekki var tekin afstaða til þess hver kostanna er ákjósanlegur. 


Tenging United Silicon

Byggingu flutningsmannvirkja vegna tengingar kísilvers United Silicon í Helguvík lauk á fyrri hluta ársins. Lagður var 9 km 132 kV jarðstrengur, Fitjalína 2, milli Fitja og Helguvíkur vegna tengingarinnar, byggt nýtt tengivirki í Helguvík og tengivirkinu á Fitjum breytt.

Tengivirki á Akranesi

Framkvæmdum við nýtt tengivirki í sameiginlegri eigu Landsnets og Veitna lauk vorið 2016 og var það tekið formlega í rekstur í janúarbyrjun 2017. Nýja virkið er staðsett á iðnaðarsvæði vestan til í bænum. Það leysir af hólmi tengivirki sem var bæði orðið gamalt og staðsett á svæði sem skipulagt hefur verið sem íbúðasvæði. 

Selfosslína 3

Nýr 28 km 66 kV jarðstrengur milli Selfoss og Þorlákshafnar var tekinn í rekstur sumarið 2016. Með tilkomu hans hefur afhendingaröryggi raforku aukast í Hveragerði, Þorlákshöfn og á Selfossi.

Styrking strengenda á Suðurlandi og Austurlandi

Árið 2016 var skipt út jarðstrengjum við tengivirkin í Neskaupstað, á Eskifirði, Flúðum, Hellu, Búrfelli og í Rimakoti. Á öllum þessum stöðum voru stuttir jarðstrengir frá tengivirki að fyrsta mastri í loftlínu sem höfðu talsvert minni flutningsgetu en loftlínan sem þeir tengdust og var þeim skipt út fyrir afkasameiri strengi.  

 

Kaup á varaspenni

Á árinu var keyptur varaspennir sem getur komið í stað byggðalínuspenna og fleiri spenna í flutningskerfinu. Afhending til viðskiptavina er háð flutningi um einn spenni á ýmsum stöðum og því felst mikið öryggi í því að hafa varaspenni tiltækan þar sem viðgerð á spenni getur tekið langan tíma. 

Styrking tengivirkisins í Mjólká

Nýr 132/66 kV spennir ásamt tilheyrandi rofabúnaði var settur upp í tengivirkinu í Mjólká síðla árs 2016 og tekinn í rekstur í ársbyrjun 2017. Með tilkomu hans eykst flutningsgeta raforku til Vestfjarða og orkuöryggi þar. Undirbúningur fyrir verkið hófst haustið 2015. Spennirinn sem var fyrir í Mjólká var fulllestaður og myndaðist flöskuháls í flutningi inn á svæðið. 

Spennuhækkun til Vestmannaeyja

Í samstarfi við HS Veitur var unnið að spennuhækkun Vestmannaeyjastrengs 3 úr 33 kV í 66 kV.  Byggja þurfti nýtt tengivirki í Eyjum, framkvæmdir hófust í ársbyrjun 2016 og er áætlað að virkið verði tilbúið til rekstrar fyrri hluta árs 2017. Jafnframt hefur virkinu í Rimakoti, sem tengir land við Eyjar, verið breytt og flutningslínur við virkið styrktar. Með spennuhækkun strengsins verður hægt að tvöfalda flutningsgetu hans og bregðast við aukinni raforkuþörf í Eyjum, m.a. vegna uppbyggingar fiskvinnslufyrirtækja þar. 

Ídráttarrör í Norðfjarðargöngum

Í tengslum við lagningu jarðganga milli Eskifjarðar og Norðfjarðar var ákveðið að búa í haginn fyrir framtíðina og voru ídráttarrör fyrir jarðstrengi lögð í göngin á árinu.

Breytingar á flutningskerfinu við höfuðborgarsvæðið

Fyrirsjáanlegt hefur verið um nokkurn tíma að styrkja þarf flutningskerfið við höfuðborgarsvæðið vegna breyttrar flutningsþarfar. Fara áform Landsnets saman við áform sveitarfélaganna á svæðinu um byggðaþróun og uppbyggingu.

Framkvæmdum til að bæta hljóðvist tengivirkisins við Hamranes í Hafnarfirði lauk á árinu. Einnig var unnið að hönnun, leyfismálum og útboðsgagnagerð fyrir tvær nýjar 220 kV raflínur, Sandskeiðslínu 1 frá fyrirhuguðu tengivirki á Sandskeiði að Straumsvík og Ísallínu 3 frá tengivirkinu við Hamranes að Straumsvík. Bygging þeirra er forsenda þess að hægt verði að rífa Hamraneslínu 1 og 2 frá Geithálsi að Hamranesi og Ísallínu 1 og 2  frá Hamranesi að álverinu í Straumsvík.

Vinna við útboðsgagnagerð og öflun leyfa vegna nýs tengivirkis á Sandskeiði fór einnig fram á árinu. 

Styrking flutningskerfisins á Snæfellsnesi

Undirbúningur og framkvæmdir til styrkingar flutningskerfisins á Snæfellsnesi fóru fram á árinu en truflanir á þessu svæði hafa verið tíðar undanfarin ár.  Fyrirhugað er að leggja nýjan 66 kV, 26 km jarðstreng milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur árið 2017 og var gengið frá innkaupum á honum á seinni hluta ársins.  Jafnframt hófst bygging tengivirkis á nýjum stað á Grundarfirði og er áætlað að framkvæmdum ljúki á vormánuðum 2017. Þá lauk hönnun nýs tengivirkis í Ólafsvík á árinu.

Tenging stækkaðrar Búrfellsvirkjunar

Vegna tengingar nýrrar 100 MW Búrfellsvirkjunar við flutningskerfið þarf að breyta núverandi tengivirki við Búrfell. Unnið var að hönnun þessara breytinga á árinu og samið um innkaup á búnaði og uppsetningu hans. 

 

Tengivirki á Hvolsvelli

Unnið var að hönnun nýs tengvirkis á Hvolsvelli sem mun leysa af hólmi eldra tengivirki sem upphaflega var byggt árið 1957. 

 

Viðhalds- og viðgerðarverkefni

Rafiðnaðarmenn Netþjónustu eru staðsettir á starfsstöðvum félagsins í Reykjavík og á Egilsstöðum og Akureyri. Þeir hafa umsjón með skoðunum og viðhaldi flutningskerfisins og sinntu yfir 700 misjafnlega stórum og umfangsmiklum verkefnum á liðnu ári. Þar af voru verkefni tengd vinnu í tengivirkjum um 500 á árinu, s.s. við tengingu á nýjum búnaði inn á flutningskerfið, vinnu við kerfisbúnað í rekstri, viðtökuprófanir og fleira þar sem sérþekking þeirra nýttist vel.
 

Víða er flutningskerfið komið til ára sinna og þarfnast viðhalds. Það  getur þó verið vandkvæðum bundið og erfitt að taka línur úr rekstri þar sem flutningskerfið er mikið lestað. Helstu viðhaldsverkefni á flutningslínum tengdust endurnýjun á upphengibúnaði í 66kV og 132kV kerfunum. 

Ekki var mikið um stórar og kostnaðarsamar bilanir árinu en gera þurfti við 22 línur vegna bilana af ýmsu tagi.  Alls voru verkefni Netþjónustu tengd bilunum, eða sem komu upp með skömmum fyrirvara, um 200 talsins árið 2016. 


Rekstur flutningskerfisins

Engar langvarandi bilanir urðu á flutningskerfinu á árinu vegna veðurs en minna var flutt af orku um kerfið en árið 2015 sökum minni orkunotkunar viðskiptavina á skerðanlegum flutningi. Rekstur kerfisins gekk því almennt vel og fækkaði rekstrartruflunum, bilunum og raforkuskerðingum umtalsvert milli ára. 

Þannig nam skerðing á orkuafhendingu til forgangsnotenda vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana aðeins um 170 MWst og var reiknað straumleysi aðeins um fimm mínútur og hefur ekki verið styttra síðastliðin 10 ár. Þessi frammistaða er sambærileg því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum og víða í Evrópu og má fyrst og fremst þakka þenna árangur góðu tíðarfari og betri kerfisvörnum með aukinni snjallnetsvæðingu. 

Það er ánægjulegt að geta boðið forgangsnotendum svo áreiðanlega raforkuafhendingu en þessi góði árangur er þó frekar undantekning en regla þar sem íslenska flutningskerfið er með mun færri og veikari tengingar en sambærileg kerfi í Evrópu. Algengara er hér að truflanir valdi straumleysi hjá notendum sem dregur úr áreiðanleika afhendingar raforku.

 

Helstu rekstrartruflanir í flutningskerfinu 

Mælikvarðinn „straumleysismínútur vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana“ hefur verið notaður frá árinu 1987 við mat á áreiðanleika íslenska raforkuflutningskerfisins en það er markmið okkar að straumleysi til forgangsnotenda fari ekki fyrir 50 mínútur.

Fyrirvaralausum rekstrartruflunum í flutningskerfinu fækkaði um 23 milli ára, úr 95 árið 2015 í 72 árið 2016 sem er þó um 16% yfir meðaltali síðustu 10 ára. Bilunum fækkaði einnig verulega á milli ára og voru 85 árið 2016, þar af eru fimm bilanir þegar kerfisvarnir eru að vinna samkvæmt fyrirfram ákveðinni hegðun búnaðar, en árið 2015 voru bilanirnar 123. (Þessi tala var lækkuð vegna mistaka miðað við þá tölu sem gefin var upp í ársskýrslu 2015) . 

Skerðingar notenda á skerðanlegum flutningi eru ekki taldar til straumleysismínútna og eru því ekki taldar með í þessu grafi

Skerðing á orkuafhendingu vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana í flutningskerfinu nam samtals 170 MWst, sem samsvarar um fimm straumleysismínútum og hefur skerðingin ekki verið minni síðastliðin 10 ár. 

Það skal áréttað að mælikvarðinn „straumleysismínútur til forgangsorkunotenda“ gefur ekki heildarmynd af áreiðanleika flutningskerfisins sjálfs. Til að átta sig á þeirri mynd þarf að skoða magn varaafls sem er keyrt í truflunum, ásamt beitingu raforkuskerðinga til notenda sem eru á skerðanlegum flutningi.

Fyrirvarlausar rekstrartruflanir eru flokkaðar skv. alvarleikaflokkun og gefur litur til kynna stig hvers atburðar. Yfirlit yfir helstu truflanirnar sem ollu skerðingu á afhendingu rafmagns til viðskiptavina má sjá í Frammistöðuskýrslu 2016

Afhendingaröryggi flutningskerfisins

Með aukinni áraun á flutningskerfið og fjölgun rekstrartruflana hefur bæði varaaflskeyrsla farið vaxandi og skerðingar til notenda á skerðanlegum flutningi. Mörg dæmi eru um hvernig snjallnetslausnir og snör viðbrögð stjórnstöðvar hafa náð að lágmarka eða afstýra alfarið straumleysi til forgangsnotenda og náðust markmið síðustu ára um afhendingaröryggi, þrátt fyrir mikinn fjölda truflana. Ef við hefðum ekki aðgang að varaaflskeyrslu né gætum skert notendur á skerðanlegum flutningi væru straumleysismínútur fyrir árið 2016 mun fleiri, eða um 34 mínútur en ekki 5 mínútur eins og mælingar sýna. 

Afltoppur ársins

Hæsti afltoppur innmötunar á árinu mældist 29. nóvember og var hann 2.291 MW sem er 0,44% lægra gildi en árið áður. Heildarúttekt úr flutningskerfinu nam 17,8 TWst sem er 1,47% hækkun milli ára. Flutningstap í kerfinu nam 2,02% af innmötun, eða samtals 360 GWst.

Yfir öryggismörkum stóran hluta ársins 

Stöðugt eftirlit er í stjórnstöðinni okkar með aflflutningi um skilgreind flutningssnið í kerfinu (sjá kort) til að lágmarka áhrif truflana í kerfinu án þess að ganga á flutningsgetuna.

Skilgreind flutningssnið ásamt öryggismörkum
 
LNDSKORTBREUTA_path_2_litlagad.png

Þegar truflanir verða í kerfinu eykst hætta á straumleysi ef flutningur um snið er nálægt, eða yfir öryggismörkum (80%). Flutningskerfið var rekið yfir öryggismörkum stóran hluta ársins 2016, eins og sjá má á línuritinu hér fyrir neðan en það sýnir orkuflutning um átta snið fyrir allt árið. Við slíkar aðstæður þarf stjórnstöðin okkar að fara fram á breytingar á vinnsluáætlunum framleiðenda, þ.e. hvar rafmagn er framleitt á landinu og grípa einnig til viðvarandi skerðinga á tilteknum landsvæðum. Rekstur af þessu tagi hefur því í för með sér óhagræði fyrir alla sem tengjast flutningskerfinu.

 


Mótvægisaðgerðir

Stjórnstöðin er orðin afar háþróuð tæknilega þegar kemur að bættri orkustjórnun og resktri flutningskerfisins, enda starfsfólkið sérþjálfað í vinnubrögðum til að meta stöðu kerfisins og rekstraráhættu samkvæmt fyrirfram skilgreindum ferlum.

Á árinu fór mikil vinna í að móta framtíðarfyrirkomulag snjallnets hjá okkur. Slíkar lausnir tryggja mjög hraðvirka skerðingu hjá notendum sem eru með samninga um skerðanlegan flutning. Þær bæta álagsjafnvægi milli svæða með álagsstýringu álvera og stýra uppskiptingu flutningskerfisins í minni einingar í truflunum, til að tryggja rekstraröryggi notenda. Samskiptaleiðir voru m.a. endurskilgreindar með tilliti til mikilvægis og búnaður var uppfærður til að mæta auknum kröfum um stýringu og öryggi. 

Mikil vinna fór einnig í undirbúning nýrra verkefna sem koma til framkvæmda árið 2017. Þar má nefna snjallnet á Suðurlandi í tengslum við spennuhækkun til Vestmannaeyja, snjallnet á Reykjanesi, álagsstýringu stórnotanda á suðvesturhorninu og uppfærslu á snjallnetsbúnaði á Austurlandi í tengslum við evrópska rannsóknarverkefnið Migrate.

Þá eru í undirbúningi hraðvirkari stýringar framleiðslueininga í truflanatilvikum, auk þess sem stöðug veðurvöktun og forvarnir í samstarfi við viðskiptavini eiga að tryggja markviss viðbrögð til að lágmarka áhrif veðurtruflana á raforkuflutninga. 

Nauðsynlegt að styrkja flutningskerfið

Mikil aukning í keyrslu varaafls í rekstrartruflunum og beiting skerðinga gagnvart notendum á skerðanlegum flutningi sýnir með skýrum hætti hvert stefnir og að flutningskerfið er víða yfirlestað. Ef ekki væri til staðar aðgangur að varaafli og heimildir til skerðinga væri afhendingaröryggi flutningskerfisins langt fyrir neðan þau viðmið sem almennt eru notuð til að meta áreiðanleika flutningskerfa. Til að tryggja rekstur raforkukerfis, sem sér öllum notendum á landinu fyrir rafmagni, er nauðsynlegt að styrkja innviði þess. Snjallnetslausnir og aukin keyrsla varaafls eru tímabundnar lausnir, plástrar sem hvorki auka flutningsgetu né áreiðanleika til langs tíma.

 

Upplýsingatækni og fjarskipti

Upplýsingatækni og fjarskipti eru sífellt mikilvægari þættir í rekstri Landsnets og raforkuflutningskerfisins í heild. Á árinu 2016 voru lykilkerfi uppfærð, fjarskipti bætt, öryggi hert og nýjar útstöðvar í orkustjórnkerfi félagsins teknar í notkun.

Hugbúnaðarkerfi fyrir reglunaraflsmarkað 

Þróun nýs hugbúnaðarkerfis fyrir reglunaraflsmarkað lauk að mestu á árinu og verður það tekið í notkun í upphafi árs 2017. Vinna við kerfið, sem heldur utan um tilboð í raforku og sendir stýrigildi í orkustjórnkerfi Landsnets til að halda jafnvægi í raforkukerfinu, hófst árið 2015. Verkið var boðið út á Evrópska efnahagssvæðinu og var samið við hugbúnaðarfyrirtækið Kolibri.

Öryggi og fjarskipti

Mikil áhersla er lögð á að tryggja öryggi hugbúnaðar- og upplýsingatæknikerfa Landsnets sem leika æ mikilvægara hlutverk í að tryggja rekstraröryggi flutningskerfisins. Unnið var að úttekt á öryggismálum gagnvart orkustjórnkerfinu og stjórnbúnaði og var í kjölfarið ráðist í lagfæringar þar sem þörf var talin á slíku og haldið námskeið um öryggismál orkustjórnkerfa og stjórnbúnaðar fyrir starfsfólk.

Víðsjárkerfi stjórnstöðvar (PhasorPoint), sem sér kerfisstjórn fyrir hágæðamælingum af öllu landinu og greinir þær í rauntíma, gegnir sífellt veigameira hlutverki í daglegri stýringu raforkuflutningskerfisins. Unnið var við að færa fjarskipti fyrir mælabúnað víðsjárkerfis (PMU) yfir á lokað fjarskiptanet í samvinnu við Orkufjarskipti á árinu og er stefnt að því að þeirri vinnu ljúki snemma árs 2017.

Þá var Fjarskiptakerfi Orkufjarskipta á Reykjanesi styrkt á árinu. Lagður var ljósleiðari milli tengivirkja á Fitjum og í Hamranesi sem gerir stjórnstöð kleift að þróa stýringar í rauntíma, sem byggja á mun meira gagnamagni og tryggja hraðari og öruggari fjarskipti. 

Orkustjórnkerfi Landsnets

Útstöðvar Orkustjórnkerfis Landsnets á Brennimel og í Korpu voru endurnýjaðar á árinu og stjórnbúnaður í nýjum tengivirkjum á Akranesi og í Helguvík tengdur kerfinu. Jafnframt var næsta uppfærsla orkustjórnkerfisins undirbúin. 

 

Nýsköpun og rannsóknir

Rannsókn á orkuöryggismálum á Íslandi

Í samvinnu við Landsvirkjun og Orkustofnun fólum við MIT-EI (Massachussetts Institute of Technology – Energy Initiative) og IIT-Comillas háskólanum á Spáni að gera rannsókn á stöðu orkuöryggismála á Íslandi út frá spurningunni: Hver er hagkvæmasta leiðin til að ná orkuöryggi á Íslandi fyrir árið 2030?

Rannsóknarteymið gerði ítarlega úttekt á núverandi stöðu orkuöryggismála hérlendis, lagði til leiðir til úrbóta og bar saman lausnir eins og styrkingar á flutningskerfinu, fjárfestingar í nýjum vatnsafls-, jarðvarma- og vindorkuvirkjunum, notkun dísilrafstöðva og gasaflsstöðva, ásamt lagningu sæstrengs til Evrópu. Einnig voru lagðar til leiðir á sviði stjórnsýslu og löggjafar, enda er leiðtogi verkefnisins, Dr. José Ignacio Pérez Arriaga, einn helsti sérfræðingur orkugeirans í þeim efnum.

Verkefnið hófst í september 2015 og var unnið af rannsóknarteymi háskólanna tveggja, í samtarfi við stýri- og verkefnishópa frá okkur í Landsneti, Landsvirkjun og Orkustofnun. Lokaskýrsla verkefnisins er væntanleg á fyrsta fjórðungi ársins 2017.

GARPUR

Við höfum verið virkur þátttakandi í evrópska rannsóknarverkefninu GARPUR sem miðar að því að beita líkindafræðilegum aðferðum við að meta áreiðanleika raforkukerfa með það að markmiði að hámarka samfélagslegan ávinning kerfanna. Verkefnið er til fjögurra ára og hlaut 1,2 milljarða króna styrk úr rannsóknaráætlun 7. rammaáætlunar ESB árið 2013 og á að hraða þróun raforkukerfa í Evrópu svo þau geti tekist betur á við aukna innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Síðari hluti verkefnis, þar sem áhersla er lögð á prófanir á nýrri aðferðafræði með þátttöku flutningsfyrirtækja í Evrópu, stendur nú yfir og stýrum við þeirri vinnu. Okkar þáttur, sem snýr að því að greina áreiðanleika kerfisins í rauntíma, er kominn mjög langt. Greining okkar er jafnframt mjög ítarleg, þar sem stuðst er við rauntímamódel raforkukerfisins, ásamt gögnum um áreiðanleika, kostnað notenda af raforkuskorti og veðurgögn í rauntíma.

Markmið með GARPUR verkefninu er að greina áreiðanleika raforkuflutningskerfa á öllum stigum, þ.e. við hönnun, viðhald og rekstur, til að fá heildstæða mynd af forgangsröðun þannig að flutningsfyrirtæki verði betur í stakk búin til að takast á við þær miklu breytingar sem eiga sér stað í uppbyggingu og rekstri raforkukerfa í álfunni og vinna að frekari þróun þeirra.

 

Öryggi, heilsa og vinnuumhverfi

Markmið okkar er að ekkert slys verði í starfseminni, enda eru öryggismál ávallt í forgangi hjá okkur og ekkert mikilvægara en að starfsfólkið komist heilt heim frá vinnu. Sterk öryggisvitund hefur verið að festast í sessi hjá starfsfólkinu okkar og árangur er stöðugt að batna en við erum eitt fárra fyrirtækja á Íslandi með öryggisstjórnun sem tekur mið af alþjóðlega öryggisstaðalinum OHSAS 18001. Staðallinn er kröfulýsing á sviði öryggis- og vinnuumhverfisstjórnunar og þurfa fyrirtæki, sem starfa skv. staðlinum, sífellt að vinna að umbótum og eru því líklegri en önnur til að ná árangri. OHSAS staðallinn á meðal annars að tryggja að öryggis- og vinnuumhverfismál séu órjúfanlegur þáttur í mats- og ákvörðunarferli við fjárfestingar vegna starfseminnar, framkvæmdir, rekstur, val á verktökum og kaup á vöru og þjónustu. Sömu kröfur vegna öryggismála eru gerðar til allra okkar verktaka og þjónustuaðila. 

Fjarveruslysatíðni ( H-gildi) 

Á árinu 2016 varð ekkert fjarveruslys hjá starfmönnum Landsnets sem er góður árangur í öryggismálum fyrirtækisins. Virkt forvarnarstarf og öryggisvitund starfsfólks okkar er meginskýringin á þessum góða árangri. Mynd 1 sýnir þriggja ára í þróun fjarveruslysa en algengustu slysin má rekja til notkunar sexhjóla, fallslysa og handmeiðsla.

Þrjú fjarveruslys, þó ekki alvarleg, urðu á árinu hjá verktökum á framkvæmdasvæðum okkar og verður gripið til hertra öryggiskrafna svo fækka megi þeim. 

Ný stefna í öryggismálum 

Á árinu var sett fram ný stefna í öryggismálum ásamt stefnumiðum og verkefnum til að styðja við hana. Þar má helst nefna fræðsluáætlun, byggða á áhættumati á þeim hættum sem gætu helst steðjað að starfsfólkinu. 

Öryggismenning er lærdómsmenning og var m.a unnið að nýjum verkefnum á árinu sem höfðu að markmiði að styðja við öryggismenningu starfsfólks okkar. Einnig voru haldin fræðslunámskeið til að efla skilning á mikilvægi þess að skapa öryggismenningu innan fyrirtækja. Þá fór fram mæling á öryggisbrag okkar og haldinn var sérstakur öryggisdagur með áherslu á þær afleiðingar sem vinnuslys geta haft á líf starfsmanna og fjölskyldur þeirra.

Neyðarstjórn Landsnets 

Neyðarstjórn okkar starfar eftir samskonar verkferlum og almannavarnir ef vá ber að höndum. Við slíkar aðstæður vinnum við einnig náið með öðrum fyrirtækjum og stofnunum, enda raforkuflutningskerfið mikilvægur hluti af innviðum samfélagsins.

Neyðarsamstarf raforkukerfisins

Neyðarsamstarfi raforkukerfisins (NSR) var komið á laggirnar árið 2006 og hefur starfsemin aukist jafnt og þétt. NSR er samstarfsvettvangur Landsnets, raforkuframleiðenda, dreifiveitna, stórnotenda og opinberra aðila vegna vár sem gæti steðjað að vinnslu, flutningi eða dreifingu raforku hérlendis. Innviðir landsins byggja á því að hafa örugga raforku og markmiðið NSR er að undirbúa og æfa samræmd viðbrögð í vá og deila upplýsingum meðal þátttakenda.

Rekstraröryggismál á alþjóðavettvangi

Nordisk Berednings Forum (NordBER) er vettvangur raforkuflutningsfyrirtækja og orkustofnana á Norðurlöndunum um rekstraröryggismál. Þátttökulöndin deila þekkingu og veita aðstoð yfir landamæri, auk þess sem haldnar eru sameiginlegar æfingar vegna ýmissa vátilfella. 

 

Umhverfis- og loftslagsmál

Við gerum okkur glögga grein fyrir mikilvægi umhverfisvænna lausna og á árinu var unnið að mótun stefnu þar sem er lögð áhersla á að vinna á kerfisbundið að málum sem snerta hollustuhætti, öryggi, umhverfisvernd og loftslagsmál. Fylgst var með umhverfisáhrifum rekstursins og aðgerðaráætlun er til staðar ef þörf krefur.

Kolefnisspor

Kolefnisspor okkar minnkaði um nær helming árið 2016 og var ígildi 5.165 tonna af koldíoxíði (CO₂) samanborið við 10.112 tonn árið 2015. Samdrátturinn er fyrst og fremst vegna minni leka á einangrunargasinu brennisteinshexaflúoríði (SF₆), sem notað er sem neistavari í rafbúnaði í tengivirkjum. Framleiðsla varaafls með dísilvélum var einnig umtalssvert minni en árið áður. Þá hefur úrgangur verið flokkaður í starfsstöðvum okkar í sjö ár og minnkaði hann um helming milli ára, úr 19,8 koldíoxíðstonnum árið 2015 í um 10 tonn árið 2016.

Engin umhverfisóhöpp

Engin alvarleg umhverfisóhöpp urðu á árinu vegna starfseminnar en stöðugt er unnið að umbótum í samræmi við ISO 14001 staðalinn. Umhverfismál eru hluti af útboðsögnum allra fjárfestingaverkefna og við framkvæmdalok fara fram úttektir með þátttöku hagsmunaðila, m.a. fulltrúum eftirlitsstofnana, landeigenda og sveitarfélaga, þar sem farið er yfir frágang og viðskilnað með tilliti til umhverfismála.