Stjórn

Stjórnin okkar er skipuð til eins árs í senn og fer hún með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Til að fullnægja lögbundnum kröfum um fyllsta hlutleysi og jafnræði í störfum ber stjórnarmönnum að vera sjálfstæðir og að öllu leyti óháðir fyrirtækinu og hluthöfum, sem og öðrum fyrirtækjum sem stunda vinnslu, dreifingu og sölu raforku.
 
Stjórn Landsnets skipa Sigrún Björk Jakobsdóttir, hótelstjóri Icelandair Hótel Akureyri, Ómar Benediktsson, framkvæmdastjóri Farice og Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Stika. Varamenn eru Svava Bjarnadóttir, fram­kvæmda­stjóri og eig­andi Kapituli ehf. og Jóhannes Sigurðsson, hæstaréttarlögmaður, sem í kjölfar stjórnarsamþykktar í desember 2016 var skipaður annar varamaður í stjórn til uppfylla lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja.
 
 
 • Formaður stjórnar

  Sigrún Björk Jakobsdóttir

  Sigrún Björk var kosin formaður stjórnar á aðalfundi 7. apríl 2016. Hún hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, samtaka, stofnana og nefnda og hefur víðtæka reynslu af vettvangi ferðaþjónustu og sveitarstjórnarmála.
 • Meðstjórnandi

  Ómar Benediktsson

  Ómar var fyrst kjörinn í stjórn Landsnets 29. mars 2012. Ómar hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, bæði innlendra og erlendra, samtaka og stofnana og hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, bæði heima og erlendis.
 • Meðstjórnandi

  Svana Helen Björnsdóttir

  Svana var fyrst kjörin í stjórn Landsnets 31. mars 2009. Svana hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja, samtaka og stofnana og hefur víðtæka reynslu af rekstri fyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis.

 Framkvæmdastjórn

Stjórn Landsnets ræður forstjóra sem ber ábyrgð á daglegum rekstri fyrirtækisins. Framkvæmdastjórn skipa forstjóri og framkvæmdastjórar.

 • Forstjóri

  Guðmundur Ingi Ásmundsson

  Guðmundur Ingi Ásmundsson er forstjóri Landsnets. Hann lauk prófi í rafmagnsverkfræði árið 1980 frá Háskóla Íslands og meistaraprófi í raforkuverkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet (DTU) árið 1982. Guðmundur Ingi starfaði hjá Landsvirkjun í 23 ár, fyrst sem verkfræðingur í rekstrardeild og síðar yfirverkfræðingur og deildarstjóri kerfisdeildar frá árinu 1993. Hann var kerfisstjóri Landsnets þegar félagið tók til starfa í ársbyrjun 2005, síðar framkvæmdastjóri kerfisstjórnar og aðstoðarforstjóri fyrirtækisins frá ársbyrjun 2008, áður en hann tók við stöðu forstjóra Landsnets 1. janúar 2015.
 • Fjármálasvið

  Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri og staðgengill forstjóra

  Fjármálasvið ber ábyrgð á fjármálum Landsnets, reikningshaldi, fjárstýringu, innkaupum, stjórnendaupplýsingum, tekjumörkum, áætlanagerð, gerð spálíkana og áhættustjórnun félagsins. Hagrænar greiningar sem styðja við tekju- og gjaldskrárgreiningar, áreiðanleika spálíkana, eignastýringu fyrirtækisins og mat á fjárfestinga- og rekstrarákvörðunum heyrir einnig undir sviðið sem og rekstur fasteigna og mötuneytis.
 • Stjórnunarsvið

  Einar S. Einarsson framkvæmdastjóri

  Stjórnunarsvið veitir þjónustu þvert á fyrirtækið og sinnir viðskiptavinum Landsnets. Sviðið er vettvangur sameiginlegrar þjónustu innan Landsnets, vinnur að verkefnum sem stuðla að aukinni samlegð, skilvirkni og samvinnu, heldur utan um samfélagsábyrgð og sinnir ytri og innri samskiptum.
 • Þróunar- og tæknisvið

  Sverrir Jan Norðfjörð framkvæmdastjóri

  Þróunar- og tæknisvið vinnur áætlanir um uppbyggingu og þróun flutningskerfis raforku fyrir allar framkvæmdir á vegum Landsnets. Sviðið stýrir rannsóknum, umhverfismati og undirbúningsverkum sem nauðsynleg eru til að taka ákvörðun um framkvæmdir. Innan sviðsins er tæknisetur sem undirbýr framkvæmdir og veitir tækniþjónustu þvert á svið.
 • Kerfisstjórnunarsvið

  Íris Baldursdóttir framkvæmdastjóri

  Kerfisstjórnunarsvið ber ábyrgð á rekstri flutningskerfis Landsnets og kerfisstjórnun. Það tryggir að jafnvægi sé á milli raforkunotkunar og raforkuvinnslu og að nægjanlegt reiðuafl sé fyrir hendi í raforkukerfinu. Kerfisstjórnun samræmir áætlanir um rof rekstrareininga sem hafa áhrif á rekstur raforkukerfisins, stýrir kerfisuppbyggingu eftir að rekstrartruflanir hafa átt sér stað, skerðir álag hjá notendum ef þörf krefur og bregst við flutningstakmörkunum. Kerfisstjórnunarsvið ber ábyrgð á upplýsingakerfum Landsnets og er miðstöð snjallnetsvæðingar raforkukerfisins.
 • Framkvæmda- og rekstrarsvið

  Nils Gústavsson framkvæmdastjóri

  Framkvæmda- og rekstrarsvið heldur utan um og stýrir öllum framkvæmdum í flutningskerfi Landsnets, hvort sem þær eru unnar af starfsmönnum fyrirtækisins eða verktökum. Sviðið hefur einnig umsjón með viðhaldi, eftirliti og viðgerðum á flutningsvirkjum Landsnets og þar er mat á ástandi flutningskerfisins meðal lykilvefna.

Skipurit Landsnets

skipurit_2015.jpg

Starfsfólkið okkar

Markvisst hefur verið að unnið að uppbyggingu mannauðsmála með það að leiðarljósi að starfsfólk sé sem best í stakk búið til að takast á við framtíðaráskoranir fyrirtækisins. Í fyrra var mótuð ný framtíðarsýn og stefna fyrir Landsnet.  Til að styðja við þá stefnu var mannauðsstefna okkar endurskoðuð og áherslum breytt í takt við nýja stefnu, gildi og framtíðarsýn fyrirtækisins.  

Í árslok 2016 voru stöðugildi, miðað við heilsársstörf, samtals 119.  Þetta er fjölgun um 9 stöðugildi frá 2015 og 6 stöðugildi miðað við 2014.

Það  byrjuðu 15 nýir starfsmenn hjá okkur á árinu og níu hættu.  Þessar breytingar helgast af því að margir starfsmenn hafa verið að hætta vegna aldurs. Það er fyrirsjáanlegt að svo verði eitthvað áfram því tæplega fjórðungur starfsmanna er orðinn 60 ára og eldri. 

Lítil breyting hefur orðið á kynjahlutfalli síðustu ár en um 80% starfsfólks eru karlar og 20% konur. Kynjahlutfall er jafnara þegar kemur að hópi stjórnenda, konur eru 38% stjórnenda en karlar 62%.

Alls er tæplega þriðjungur (31%) starfsfólks búinn að vinna í 11 ár eða lengur hjá okkur. Vegna endurnýjunarinnar er fjórðungur búinn að vinna 3 ár eða minna.

 

 


Menntun

Starfsfólk okkar er vel menntað, með mikla reynslu og býr yfir sérhæfðri þekkingu.
 
Menntunarstig er hátt hjá okkur en alls eru 64% starfsfólks með háskólamenntun, 28% með iðnmenntun og 8% með annars konar menntun. Fjölmennustu hóparnir eru með rafiðnmenntun og háskólanám á sviði verk- og tæknifræði. Að öðru leyti er starfsfólkið okkar einnig með fjölbreytta menntun og reynslu.  Ný starfsstöð á Akureyri

Á árinu 2016 var fyrsti starfsmaður okkar á Norðurlandi ráðinn. Áætlað er að byggja frekar upp starfsstöðina á Akureyri með fleiri ráðningum til að bæta enn frekar þjónustuna á Norðurlandi, allt frá Hrútafirði að Kröflu. 

Heilsuvakning

Þriggja vikna heilsuvakning fór fram í september og tókst vel til. Á meðan á henni stóð gengum við 2.900 km sem er næstum því vegalengdin milli Reykjavíkur og Vínarborgar. Við gerðum 20.457 heilsueflandi æfingar og slökunaræfingar sem stóðu yfir í samtals sex sólarhringa. 

Heilsuvakningin skilaði sjö tonnum og 405 lítrum af vatni til UNICEF á Íslandi, 100 skömmtum af bóluefni við mænusótt og 30 skömmtum af jarðhnetumauki til barna í neyð. 

WOW Cyclothon

Tíu starfsmenn tóku þátt í hjólreiðakeppninni WOW Cyclothon í júni og hjóluðu hringinn í kringum landið, alls 1.358 km. 

Fræðsla og þjálfun

Við leggjum mikla áherslu á þjálfun og fræðslu enda krefst starfsemi fyrirtækisins mikillar og sérhæfðar þekkingar. Markmiðið er að stuðla að stöðugum umbótum og tryggja að starfsfólkið hafi þá hæfni og þekkingu sem þarf til að takast á við verkefni dagsins og framtíðaráskoranir fyrirtækisins. Sérstaklega er lagt upp úr að þjálfunin taki mið af þeim stefnum og markmiðum sem sett hafa verið hjá fyrirtækinu. Stuðst er við þarfagreiningar til að meta þjálfunarþörf og í kjölfarið er gefin út þjálfunaráætlun sem endurspeglar sérhæfða starfsemi fyrirtækisins, enda er það eitt af markmiðum námskeiðanna að miðla áfram þeirri miklu og sérhæfðu þekkingu sem starfsfólkið okkar býr yfir.  

Á  árinu voru haldin 46 námskeið eða kynningar á vegum okkar. Þar af voru 31 sérhæft námskeið fyrir hópa innan fyrirtækisins, m.a. jarðstrengjanámskeið, skyndihjálparnámskeið, línuskoðanir, námskeið um staðlana IEC61850 og PCM600 og SAReye námskeið. Þá luku stjórnendur viðamikilli stjórnendaþjálfun á árinu hjá Dale Carnegie. 

Workplace 

Við tókum í notkun samfélagsmiðilinn Workplace by Facbook í desember en hann gerir starfsfólki auðveldara að nálgast upplýsingar og miðla þeim áfram, hvort sem er í gegnum tölvu eða snjallsíma. Þannig á Workplace að hjálpa okkur að tengjast betur saman, hvar og hvenær sem er. 

Þrátt fyrir að stutt sé liðið frá innleiðingu miðilsins hefur hann þegar sannað gildið sitt og breytt vinnustaðamenningunni, þjappað okkur saman og eflt liðsheildina.

Sumarstörf

Ráðið var í 40 sumarstörf 2016, þar af voru 24 framhaldsskólanemar og 14 háskólanemar. 

Stefnan er að styðja við bakið á ungu fólki í námi og leggja þannig okkar að mörkum til samfélagsins. Áhersla er lögð á að bjóða háskólanemum áhugaverð störf þar sem þeir fá tækifæri til að takast á við raunverkefni á sínu námssviði.
Eigendur 

Landsnet er hlutafélag í eigu Landsvirkjunar, RARIK, Orkuveitu Reykjavíkur og Orkubús Vestfjarða og tók til starfa í ársbyrjun 2005. Fyrirtækið starfar samkvæmt sérleyfi og er háð eftirliti Orkustofnunar sem ákveður tekjumörk sem gjaldskrár byggja á.