sigrun.png
 
Sigrún Björk Jakobsdóttir stjórnarformaður:

„Efling raforkuflutningskerfisins undirstaða orkuskipta“

Í orðræðu ársins mátti greina auknar áherslur á loftslagsmál og orkuskipti. Þjóðir heims hafa nú hafist handa við að uppfylla Parísarsamkomulagið og ná þeim markmiðum sem þar voru sett. Ísland er þar ekki undanskilið og ljóst að mikið verk er fram undan. 

Í árslok kynntum við nýja kerfisáætlun þar sem settar voru fram fjórar sviðsmyndir um hugsanlega þróun varðandi þörf og nýtingu raforku fram til ársins 2030.

Við þurfum ekki að líta nema 15 ár til baka, til að sjá þá miklu breytingu sem átt hefur sér stað, hvort sem er í þróun endurnýjanlegra orkugjafa eða í breytingum á samfélaginu sem kallað hafa á aukið framboð á raforku. 

Heildarhlutdeild endurnýjanlegrar orku í orkubúskap landsins er 71% en hlutfall endurnýjanlegrar orku í samgöngum á landi er aðeins um 6% og 0,1% fyrir innlend fiskiskip. Í þingsályktunartillögu síðustu ríkisstjórnar var sett fram markmið um að árið 2030 yrði hlutfallið komið í 30% fyrir samgöngur á landi og í 10% fyrir haftengda starfsemi. 

Íslendingar hafa á undanförnum áratugum náð góðum árangri í orkuskiptum með notkun endurnýjanlegra orkugjafa fyrir hita- og rafveitur landsins. Langt er enn í að sama árangri verði náð í samgöngum, þó okkur hafi miðað örlítið með rafbílum og vistvænum bifreiðum. Haftengd og flugtengd starfsemi, hvort sem er í samgöngum, ferðaþjónustu eða afurðavinnslu, er hins vegar enn á byrjunarreit. Þar eru tækifæri til að ná miklum árangri. 

Ljóst er að lítill árangur næst í þessum efnum nema flutningskerfi raforku verði eflt. Í kerfisáætlun eru lagðar til tvær leiðir. Annars vegar að byggðalínan, sem liggur með fram helstu náttúruperlum og ferðamannastöðum Suðurlands, verði styrkt eða að lögð verði hálendislína yfir Sprengisand. Leiðirnar tvær þarf að meta vel og nauðsyn er á miklu og góðu samráði á milli almennings og stjórnvalda því þau munu taka hina endanlegu ákvörðun.

Hjá Landsneti vinnur samhentur og öflugur hópur starfsfólks sem vinnur störf sín af alúð og með heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Fyrir það vil ég færa því bestu þakkir. 

 


gik600400zoom.png

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri:

„Mikilvægt fyrir okkur að ferlið sem unnið er eftir sé skýrt“ 

Ísland er ríkt af endurnýjanlegri orku og í nútímasamfélagi verðum við sífellt háðari öruggu rafmagni. Hlutverk okkar er að tryggja að orkan komist á leiðarenda, bæði það magn sem þörf er á og af þeim gæðum sem nauðsynleg eru til að samfélagið gangi snurðulaust fyrir sig. 

Mikil umskipti urðu í rekstarumhverfi Landsnets á liðnu ári með nýjum ákvörðunum um tekjumörk fyrirtækisins og upptöku dollars sem uppgjörsmyntar. Við tókum stór skref í endurfjármögnun félagsins með skuldabréfaútgáfu og var mjög ánægjulegt að sjá hvað fjárfestar sýndu okkur mikinn áhuga og traust. Skuldabréfaútgáfan skilaði okkur hagstæðari kjörum, auk þess sem dregið var úr gengisáhættu. Á næstu  árum getum við vænst mun meiri stöðugleika í fjármálum fyrirtækisins en verið hefur.


Brýnustu verkefnin fram undan snúa að styrkingu meginflutningskerfisins til framtíðar. Við höfum ekki getað tryggt öruggt rafmagn alls staðar á landinu og þurft að grípa til skerðinga, sem leiðir til notkunar olíu í stað endurnýjanlegrar hreinnar orku. Mikil umræða hefur verið um verkefni okkar á Norðausturlandi sem og um nýja Suðurnesjalínu. Það er mikilvægt fyrir okkur að ferlið sem unnið er eftir sé skýrt en þessi verkefni hafa öll verið í bígerð í áratug. Því vakna spurningar um hvort ferlið, sem unnið er eftir, sé nægilega skýrt og hvort það teljist eðlilegt að breytingar á því séu afturvirkar. Í flestum ríkjum Evrópu er verið að einfalda ferlið til að bregðast við sambærilegum málum og hér hafa komið upp. Einfalt og skilvirkt ferli, þar sem deilu- og kærumál eru útkljáð áður en framkvæmdir hefjast, er til hagsbóta fyrir alla aðila.

Það er mikilvægt fyrir okkur að eiga gott samstarf og samtal við alla sem framkvæmdir  okkar hafa áhrif á, hvar sem það er í ferlinu. Við höfum undanfarið lagt aukna áherslu á upplýsingagjöf og samráð. Þetta hefur m.a. birst í aukinni virkni okkar á samfélagsmiðlum en einnig í formi breyttrar uppsetningar kerfisáætlunar og samtals og samráðs í kringum hana. Þetta hefur bæði fjölgað leiðum til að koma upplýsingum á framfæri með gangsærri hætti en áður og ekki síður skapað tækifæri til skoðanaskipta. 

Fyrirtæki eins og okkar er ekkert án starfsfólksins sem þar vinnur. Hjá okkur starfar fólk með fjölbreytta menntun, fólk sem leggur sig fram við að gera sitt besta á hverjum degi og til að standa við þau loforð sem við höfum gefið. 

Þannig erum við – þannig er Landsnet!