Árið 2016 er fyrsta árið sem við birtum ársreikning okkar í Bandaríkjadölum en í ársbyrjun var starfrækslugjaldmiðli fyrirtækisins breytt úr íslenskum krónum í Bandaríkjadali. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir er nánast óbreyttur á milli ára og í takt við áætlanir. Stendur reksturinn á mjög traustum grunni og tap félagsins má nær eingöngu skýra með styrkingu krónunnar á árinu og áhrifum þess á fjármagnskostnað.

Stórt skref var stigið í lok ársins í þá átt að að breyta fjármögnun félagsins yfir í Bandaríkjadali þegar samkomulag náðist um innborgun á verðtryggt stofnlán móðurfélagsins Landsvirkjunar og skuldbreytingu á eftirstöðvum þess yfir í dollara. Til að mæta þeim skuldbindingum sóttum við 200 milljón dollara fjármögnun í Bandaríkjunum, sem er sú fyrsta hjá félaginu á þeim markaði og gekk vel. Eftir breytinguna er um 80% af fjármögnun félagsins í Bandaríkjadölum og 20% í öðrum myntum. Með þessum breytingum hefur gengis- og verðbólguáhætta félagsins jafnframt verið minnkuð verulega til framtíðar, bæði hvað varðar áhrif á niðurstöðu rekstrar og efnahags.

Helstu niðurstöður ársreiknings (milljónir USD)


dollara.jpg

Tap ársins skýrist að mestum hluta af styrkingu krónunnar

Þrettán milljón dollara tap

Samkvæmt rekstrarreikningi nam tap af rekstri Landsnets árið 2016 tæplega 13 milljónum USD á móti 30,4 milljóna USD hagnaði árið 2015. Rekstrarhagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði (EBIT) var 49,7 milljónir USD en var 56,8 milljónir USD árið 2015 og skýrist lækkunin að mestu leyti af hærri afskriftum vegna endurmats eigna á árinu 2015. Rekstrartekjur námu 129,7 milljónum USD og hækkuðu um sjö milljónir USD á milli ára. Tekjur af flutningi til stórnotenda drógust saman um 2,6 milljónir USD og skýrist það að mestu leyti af lækkun gjaldskrár á árinu.


Tekjur af flutningi til dreifiveitna jukust um 5,2 milljónir USD á árinu. Gjaldskrá dreifiveitna var hækkuð í tvígang á árinu en á móti dróst flutningur til skerðanlegra notenda saman. Tekjur vegna sölu á kerfisþjónustu og orkutapa í flutningskerfinu jukust um 3,9 milljónir USD á milli ára. Gjaldskrá vegna kerfisþjónustu hækkaði um 4,5% þann 1. janúar og gjaldskrá vegna orkutaps hækkaði um 12%. Hækkanirnar má rekja til hærra innkaupsverðs á þessum liðum en gjaldskrá er sett á kostnaðargrunni með 1,5% álagi.

Rekstrargjöld án afskrifta námu 50,6 milljónum USD og hækkuðu um 6,8 milljónir USD á milli ára. Hún skýrist aðallega af hækkun innkaupsverðs vegna kerfisþjónustu og orkutapa sem nam 4,1 milljón USD. Afskriftir voru 29,5 milljónir USD og hækkuðu um 7,3 milljónir USD á milli ára, að mestu vegna endurmats eigna sem framkvæmt var í árslok 2015.

Hrein fjármagnsgjöld ársins 2016 voru 66,2 milljónir USD á móti 19 milljónum USD árið 2015, sem er hækkun á milli ára um 47,2 milljónir USD. Fyrirtækið var að mestu fjármagnað í íslenskum krónum, eða um 90% af lánasafninu og nam gengistap ársins 45,2 milljónum USD þar sem krónan styrktist um 13% gagnvart Bandaríkjadal á árinu. Í lok ársins var fjármögnun fyrirtækisins breytt og er lánasafn þess komið að mestum hluta í Bandaríkjadali, eða um 80%.

Stórt skref í endurfjármögnun stigið á árinu

Eignir Landsnets námu alls 770,8 milljónum USD í árslok 2016 samanborið við 794,6 milljónir USD í lok fyrra árs. Eignir skiptust þannig að fastafjármunir voru 735,4 milljónir USD í árslok samanborið við 709,8 milljónir USD í árslok 2015. Þar af námu fastafjármunir í rekstri 665,1 milljón USD í árslok samanborið við 666,9 milljónir USD í árslok 2015.

Langtímaskuldir og skuldbindingar námu 425,8 milljónum USD en skammtímaskuldir 36,6 milljónum USD í árslok 2016. Til samanburðar voru langtímaskuldir 435,9 milljónir USD og skammtímaskuldir 34,9 milljónir USD í árslok 2015. Árlegar afborganir langtímalána námu 7,4 milljónum USD og að auki var greitt tvisvar sinnum inn á stofnlán móðurfélagsins, alls 143,9 milljónir USD. 

Fyrirtækið gaf út óveðtryggt skuldabréf að fjárhæð 200 milljónir USD með föstum vöxtum í lokuðu útboði í Bandaríkjunum í desember 2016. Á sama tíma var eftirstöðvum á stofnláni frá móðurfélaginu, sem var í verðtryggðum íslenskum krónum og án uppgreiðsluheimildar fram að lokagjalddaga í mars 2020, breytt í Bandaríkjadali. Fjármögnunin og skuldbreyting eftirstöðvanna er liður í því að breyta samsetningu lána og færa þau yfir í starfrækslugjaldmiðil félagsins til að draga úr gengis- og verðbólguáhættu. Útgáfan var í tveimur áföngum, helmingur greiddur í desember 2016 og eftirstöðvar í mars 2017. 
Eigið fé Landsnets í árslok 2016 nam 308,4 milljónum USD að meðtöldu hlutafé að fjárhæð 45,5 milljónir USD samkvæmt efnahagsreikningi. Eigið fé í lok árs 2015 var 323,8 milljónir USD. Hlutfall eigin fjár af heildareignum nam 40% í árslok 2016 samanborið við 40,7% í lok árs 2015.

Fyrstu arðgreiðslur til eigenda 

Handbært fé frá rekstri árið 2016 nam 52,4 milljónum USD samanborið við 61,5 milljónir USD árið 2015. Veltufé frá rekstri án fjármagnsliða og skatta nam 79,2 milljónum USD samanborið við 79,0 milljónir USD árið 2015. Fjárfestingahreyfingar ársins voru 42 milljónir USD og fjármögnunarhreyfingar 55,8 milljónir USD. Handbært fé í árslok 2016 nam 18,3 milljónum USD og lækkaði um 45,4 milljónir USD á árinu. Afborganir lána umfram lántökur námu 52,6 milljónum USD. Á árinu var í fyrsta skipti greiddur arður til eigenda og nam hann 3,2 milljónum USD.
 

Tekjumörk og gjaldskrár

Landsnet starfar á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 og samkvæmt 12. gr. laganna skal Orkustofnun setja fyrirtækinu tekjumörk. Þau skulu vera tvískipt, annars vegar vegna flutnings á raforku til dreifiveitna og hins vegar vegna flutnings til stórnotenda. Tekjumörk eru sett til fimm ára í senn og taka mið af sögulegum rekstrarkostnaði félagsins, afskriftum fastafjármuna, sköttum og leyfðri arðsemi, sem Orkustofnun ákveður árlega. Fyrirtækið skal ákveða gjaldskrá vegna þjónustu sinnar í samræmi við sett tekjumörk; fyrir dreifiveitur í íslenskum krónum og fyrir stórnotendur í bandarískum dollurum.

Fyrri tekjumarkatímabil hafa verið gerð upp og árið 2016 hófst nýtt tímabil sem gildir til 2020. Leyfð arðsemi Landsnets vegna 2016 lá fyrir í apríl og voru tekjumörkin fyrir tímabilið 2016 til 2020 sett í maí. Í meðfylgjandi töflu má sjá ákvarðanir Orkustofnunar um arðsemi Landsnets frá árinu 2011, eftir skatt.

2011* 2012* 2013* 2014* 2015* 2016
Dreifiveitur 5,53% 5,12% 4,50% 4,69% 5,26% 5,92%
Stórnotendur 6,64% 5,60% 4,80% 4,52% 4,92% 5,46%
*Ákvörðun Orkustofnunar um arðsemi lá fyrir 21. júlí 2015Breytingar á flutningsgjaldskrá dreifiveitna

Arðsemisþátturinn vegur þungt í ákvörðun tekjumarka og þar af leiðandi við ákvörðun gjaldskrár. Flutningsgjaldskrá fyrir dreifiveitur var hækkuð tvisvar sinnum 2016, fyrst um 10% 1. janúar og um 13% þann 1. desember.

Ástæður þessara gjaldskrárbreytinga eru uppgjör tekjumarka 2015 og ný tekjumörk sem sett voru árið 2016. Ákveðið var að fullnýta ekki tekjuheimildir ársins 2016 til að reyna að sporna við gjaldskrárhækkunum en við uppgjör á tekjumörkum til dreifiveitna árið 2015 kom í ljós að uppsafnaðar vanteknar tekjur félagsins voru umfram leyfilega heimild (10% af tekjumörkum). Jafnframt kom í ljós við ákvörðun um arðsemi fyrir árið 2016 að hún myndi leiða til hækkunar á gildandi gjaldskrá. Varð þá ljóst að bregðast yrði við og því urðu gjaldskrárhækkanirnar á árinu 2016 tvær en flutningsgjaldskrá til dreifiveitna hafði þá einungis hækkað einu sinni í fimm ár þar á undan, eða um 9% árið 2013. 

Á meðfylgjandi línuriti má sjá þróun gjaldskrár dreifiveitna frá árinu 2011. 
Lækkun á flutningsgjaldskrá stórnotenda

Gjaldskrá stórnotenda lækkaði um 9% þann 1. júlí 2016 á grunvelli ákvörðunar Orkustofnunar um tekjumörk stórnotenda og viðmið um leyfða arðsemi. Arðsemisþátturinn vegur þungt í ákvörðun tekjumarka og þar af leiðandi við ákvörðun gjaldskrár. Leyfð arðsemi til stórnotenda var hærri við gerð áætlunar fyrir árið 2016 en niðurstaða Orkustofnunar varð og var gjaldskráin því lækkuð til að mæta þeirri breytingu. 

Á meðfylgjandi línuriti má sjá þróun gjaldskrár stórnotenda frá árinu 2011.  
Breytingar á orkukaupum vegna flutningstapa

Gjaldskrá vegna flutningstapa, sem er eins fyrir dreifiveitur og stórnotendur og birt í íslenskum krónum, hækkaði um 12% í ársbyrjun  2016. Hún tekur mið af innkaupsverði, auk 1,5% álags til að mæta kostnaði við umsýslu, en samkvæmt raforkulögum ber félaginu að útvega rafmagn í stað þess sem tapast í flutningskerfinu vegna viðnáms í flutningslínum og spennum.

Kostnaður vegna orkutapa hefur farið vaxandi á liðnum árum, annars vegar sökum aukins orkutaps samhliða aukinni raforkunotkun og hins vegar vegna hækkana á meðalverði á grundvelli útboða. Þannig hækkaði meðalverð raforku sem félagið keypti til að mæta flutningstöpum um 17% milli ára á grundvelli útboðs haustið 2015. Útboð haustið 2016, til að mæta flutningstapi fyrri hluta árisins 2017, leiddi til enn frekari hækkana (fór úr 4.447 kr/MWst í 4.965kr/MWst), eða sem nemur um 12% meðaltalshækkun, auk þess sem ekki fengust tilboð í alla útboðna orku á árnum 2015 og 2016.

Til að bregðast við þessu verður tekið upp rafrænt innkaupaferli og gerðir rammasamningar við raforkusala til nokkurra ára um sölu á orku, sem síðan verður boðin út rafrænt fyrir styttri tímabil í senn. Þannig næst þéttari endurgjöf á verð til markaðsaðila og meiri sveigjanleiki, skilvirkni og hagkvæmni innkaupa. 
Hækkun á gjaldskrá vegna kerfisþjónustu

Kerfisþjónusta er sú þjónusta sem við veitum til að viðhalda rekstraröryggi og jafnvægi í framboði og eftirspurn raforku á hverjum tíma. Gjaldskrá fyrir hana hækkaði um 4,5% í ársbyrjun 2016, fyrst og  fremst til að mæta hækkunum á verði fyrir uppreglunarafl, sem er það afl sem bæta þarf inn á kerfið þegar raunnotkun er meiri en áætluð notkun í raforkukerfinu í heild.


Undir kerfisþjónustuna fellur einnig útvegun reiðuafls, varaafls sem er tengt kerfinu og tiltækt án fyrirvara, reglunaraflstrygging sem tryggir lágmarksframboð á reglunaraflsmarkaði og varaafl. Til þess að sinna þessum lögboðnu skyldum öflum við aðfanga frá vinnslufyrirtækjum og aðgangs að varaafli hjá dreifiveitum. Þannig runnu út á árinu langtímasamningar sem tryggðu að 100 MW reiðuafl væri jafnan fyrir hendi á hverju ári og var í framhaldinu gerður nýr samningur við Landsvirkjun um reiðuafl sem nemur 40 MW í aflstöðvunum við Blöndu, Þjórsá og Tungnaá. Jafnframt voru tryggð 40 MW til uppreglunar og 40 MW til niðurreglunar á reglunaraflsmarkaði fyrir tímabilið maí 2016 til apríl 2017. Meðalverð jöfnunarorku á reglunaraflsmarkaði var 3.843 krónur og sést verðdreifingin á meðfylgjandi kökuriti.
Áhættustýring

Við höfum að leiðarljósi að sinna lögbundnum skyldum okkar þannig að öryggi starfsfólks, viðskiptavina og búnaðar félagsins sé tryggt, fjárhagsleg staða fyrirtækisins sé traust og það sinni grunnhlutverki sínu í sem mestri sátt við umhverfið og almenning.

Markmið áhættustýringar félagsins er að tryggja samfelldan rekstur við hverjar þær aðstæður sem upp kunna að koma og stefna að ásættanlegri afkomu á hverjum tíma með tilliti til undirliggjandi áhættuþátta í rekstrinum. Áhættunálgun félagsins mótast ekki síst af því að það sinnir grunnþjónustu í samfélaginu og tekur þar af leiðandi litla eða hófsama áhættu. Því er bæði áhættuvilji (e. risk appetite) og áættuþol (e. risk tolerance) félagsins lágt. 

Nýtt áhættumatskerfi

Nýtt áhættumatskerfi var innleitt hjá fyrirtækinu á árinu til að koma til móts við kröfur ISO staðla. Þeir áhættuþættir sem geta skapast í stafsemi fyrirtækisins eru skilgreindir, könnuð möguleg áhrif þeirra á starfsemina og skipulagðar mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir eða lámarka áhrif þessara áhættuþátta og fylgjast með þróun þeirra. 

Við metum áhættur í rekstrinum samkvæmt skilgreindri áætlun. Hætturnar eru metnar mismunandi oft, eftir alvarleika, en helstu fjárhagsáhættur okkar eru rekstraráhætta og fjárhagsleg áhætta. 

  • Rekstraráhætta er skilgreind sem hætta á neikvæðum áhrifum á afkomu fyrirtækisins. Hún lýtur m.a. að atriðum er varða framleiðslu inn á kerfið, flutningskerfinu í heild, upplýsinga- og eftirlitskerfum, verkefnaáhættu, mannauði, öryggi og fleiru. 
  • Fjárhagsleg áhætta lýtur fyrst og fremst að fjárhagslegum málum í starfsemi fyrirtækisins, þ.e. áhættu á fjárhagslegu tapi á liðum innan og utan efnahagsreiknings, m.a. vegna breytinga á markaðsvirði þessara liða. Undir markaðsáhættu fellur áhætta vegna breytinga á vöxtum, gengi gjaldmiðla og verðbólgu. Skilgreind fjárhagsleg áhætta félagsins er markaðs-, lausafjár- og mótaðilaáhætta. Markvisst var unnið að því á árinu að draga úr markaðsáhættu með því að endurfjármagna og skuldbreyta stofnláni frá móðurfélagi Landsnets sem var verðtryggt og í íslenskum krónum. Endurfjármögnun og skuldbreyting lánsins er í Bandaríkjadölum og hefur félagið þar með færst nær þeim markmiðum að ná fram eðlilegri greiðsludreifingu á afborgunarferil langtímalána.Innkaup og birgðahald

Árið var mjög annasamt í innkaupum sökum aukins framkvæmdaþunga hjá fyrirtækinu, ekki síst vegna stórra og mjög flókinna verkefna á Norðausturlandi með miklu flækjustigi vegna kærumála. Útboð ársins voru 27 sem er sami fjöldi útboða og árið 2015.

Endurskoðun fór fram á ferlum innkaupa hjá fyrirtækinu og gefnar voru út nýjar innkaupareglur á þriðja ársfjórðungi, auk þess sem lokið var við að gera almenna birgjaskilmála. Í birgðhaldi var lögð áhersla á aukna sjálfvirkni í ferlum og var lokið við innleiðingu á notkun strikamerkja og handtölva í birgðageymslu okkar á Gylfaflöt.